Hvenær er tímabært að fara á fæðingarstað?

Aug 30 / Inga María Hlíðar Thorsteinson
Það er alltaf erfitt að segja nákvæmlega á hvaða tímapunkti er gott að koma, en oft er miðað við að konur séu líklega komnar á virkt stig (fyrsta stig) fæðingar þegar verkir hafa staðið yfir í a.m.k. klukkustund, verkirnir standa yfir í um 60 sek OG það eru 3-5 mínútur á milli. Annað viðmið um að konur séu komnar á virkt stig er að konur séu komnar með 4-6 cm í útvíkkun. Þetta á þó ekki við um allar konur.

Sumar eru lengi með örar og harðar hríðar en útvíkkun gengur hægt. Aðrar eru komnar fyrr á virkt stig. Því tala ég um að þegar konunni er farið að líða illa að vera heima að þá skuli hún hafa samband við sinn fæðingarstað -og fyrr ef hún er óviss. Hún fær þá bara ráðleggingar um að vera lengur heima ef hún er að hringja of snemma. Ef hún er með mjög mikla verki en litla útvíkkun er hægt að bregðast við því með verkjalyfjum. Stundum eru konur sendar aftur heim ef þær koma í skoðun og stundum eru þær lagðar inn á stofu (ekki fæðingarstofu) til hvíldar.

Þegar konur eru komnar á virkt stig fæðingar (fram að því eru þær á svokölluðu forstigi fæðingar og þá er allur gangur á því hve langt er á milli verkja og hve lengi það tekur fyrir leghálsinn að opnast) er stundum horft á viðmiðið að það verði ca 1cm í útvíkkun á 2 klukkustundum hjá frumbyrjum og 1 cm í útvíkkun á 1 klukkustund hjá fjölbyrjum, en þetta er auðvitað bara viðmið en ekki regla.

Ath. að þessar ráðleggingar eiga við um hraustar konur í eðlilegri meðgöngu. Ef þú hefur fengið fyrirmæli um annað frá þinni ljósmóður eða lækni skaltu fara eftir þeim ráðleggingum :) 
Created with