Fæðingarsaga Hafdísar

Jan 29 / Hafdís Smáradóttir
Ég átti langa og erfiða fæðingu sem var samt svo fullkomin 🫶🏻

Við mættum á settum degi upp á fæðingardeild til að hefja gangsetningu vegna þess hve stór litli stubbur var. Ég mætti full væntinga og vona og hélt að þetta yrði sko heldur betur dagurinn sem hann kæmi, en svo var ekki 😅 Ég kláraði allan fyrsta daginn að taka töflur heima og það var ekkert að frétta. Daginn eftir mættum við aftur upp á deild í skoðun, aftur sannfærð um að þetta yrði dagurinn. Það var ekkert að frétta. Við kláruðum þann dag líka heima með töflur án þess að neitt væri að gerast.
Á þriðja degi fór slímtappinn þegar ég var nývöknuð og þá hélt ég að nú hlyti allt að fljúga af stað. Við mættum aftur upp á deild í skoðun þennan morgunn og það var enn aftur ekkert að frétta. Núna var ákveðið að reyna að sprengja belginn, sem tókst en ekkert skeði. Tveimur tímum seinna byrjaði ég að fá drippið og þá loksins fór eitthvað að ske og ég fór að finna fyrir sterkum hríðum.

Eftir næstum 7 klukkutíma af mjög sárum hríðum var ég komin með 9 í útvíkkun og farin að finna fyrir rembingsþörf. Þá auðvitað hélt ég að það væri bara smá eftir og sá fyrir mér að hann myndi 100% koma fyrir miðnætti (klukkan var um 18 þarna). Ferlið gekk mjög hægt eftir þetta og kom fljótlega í ljós að hann væri skakkur og líklega í framhöfuðstöðu. 
Um 21:30 var reynt að snúa kollinum svo hann kæmi réttari niður og útvíkkun myndi klárast. Rétt fyrir kl. 23 var ég loksins komin með 10 í útvíkkun og ég mátti byrja að rembast almennilega. Klukkan 01:30 er aftur reynt að snúa kollinum þar sem hann var aftur orðinn skakkur og kom ekki nógu langt niður. Klukkan 02:50 er ákveðið að þetta sé fullreynt og ákveðið að reyna á sogklukku sem plan A og keisara sem plan B. Reynd eru 5 tog með sogklukku án árangurs og er þá ákveðið að fæðing um leggöng sé fullreynd og núna sé kominn tími á keisara. Klukkan 03:43 fæðist svo mjög stór og hraustur strákur með keisara.

„Þrátt fyrir að þetta hafi verið mjög langt ferli, mikill sársauki og endalaus bið hefði ég ekki getað verið sáttari með fæðinguna.“

Það sem ég tel að se ástæðan fyrir því er að við vorum búin að kynna okkur allt tengt fæðingum og fórum inn með alveg opin hug fyrir því að þetta gæti farið á alla vegu. Í gegnum allt ferlið var allt starfsfólk rólegt og yfirvegað og við vissum alltaf hvað planið var og hvernig staðan væri. Það kom aldrei upp hræðsla og hjá okkur og við gætum ekki verið þakklátari fyrir allt starfsfólkið sem passaði að okkur leið vel 🤍

Hafdís Smáradóttir og Hafþór Ingi Jónsson
Created with