Fæðingarsaga Evu

Oct 18 / Eva Grímsdóttir
Fimmtudagurinn 28.09.23. 
Gengin 39+6

kl 6:45 morguninn 28. september vaknaði ég og Bjarki Freyr (stóri bróðir) kom og skreið undir sæng til mín og við kúrðum ❤️ ég fékk á sama tíma samdrátt og fannst einhvað aðeins öðruvísi við hann.. ekki alveg 100% verkjalaus samdráttur en pældi samt ekkert meira í því... fyrr en ég fékk stuttu seinna aftur samdrátt sem mér fannst líka smá óþægilegur. Þetta var svona eins og smá túrverkjaseyðingur framaná og undir kúlunni. Aðeins öðruvísi en venjulegur verkjalaus samdráttur. 
Við fórum á fætur og byrjuðum daginn og samdrættirnir héldu áfram að koma. 
kl 7:30 fór ég að átta mig á að þeir voru í alvöru óþægilegir - ég var nefnilega alveg í smá stund að finna að það væri einhvað í raun að gerast og hvort að tilfinningin væri meiri en bara spennutilfinning með samdrættinum. 
Ég fór að skrá þá með hríðaappi. Þeir voru þá um 40 sekúndna langir með um 4-5 mínútna millibili. Enþá bara vægur túrverkjaseyðingur.
Þarna var ég farin að hugsa fyrir alvöru að ég væri mögulega að byrja í fæðingu.... en ég var samt eiginlega ekki enþá að trúa því!

Ég fór að ganga frá allskonar dóti, taka til og gera smá huggulegra heima því ég fann á mér að þetta væri að fara að gerast... 
Rétt fyrir kl 8 vorum við Árni enþá að gera upp með okkur hvort hann ætti að fara í vinnuna.. en hann byrjaði á að skutla Bjarka í leikskólann og kl 7:57 hringdi ég í mömmu og sagði henni stöðuna. Strax í kjölfarið lét ég Hildi systir vita að ég væri mögulega byrjuð að malla í gang því hún ætlaði að vera viðstödd í fæðingunni. 
Um kl 8:30 kom mamma (sem er ljósmóðir) og þá voru samdrættirnir orðnir 50-60 sekúndna langir og búið að lengjast aðeins á milli þeirra í 7-8 mínútur eftir að ég lagðist niður og hvíldi mig. Verkirnir voru aðeins versnandi en ég gat enþá alveg talað á meðan þeir stóðu yfir. Ég náði mjög góðri hvíld á milli hríða. Mamma taldi þetta vera á undirbúningsstigi. Hríðin var í raun ekki orðin nógu sterk til að vera komin í activea fæðingu og því engin þörf á að skoða mig og meta útvíkkun strax. Ég var sammála því. 
Mamma fór aftur í vinnuna og ég átti að láta hana vita þegar það yrðu um 4-5 mínútur á milli samdrátta í hvíld. 
Árni blés í fæðingarlaugina og gerði notalegt frammi í stofu með tónlist og kertaljósi.

kl 10:20 var ég búin að liggja uppí rúmi að slaka á og hlusta á fæðingarplaylistann minn og enþá voru 7 mínútur á milli samdrátta en verkirnir orðnir mun óþægilegri. Um leið og ég fór að ganga um styttist á milli hríða en þær voru ekki alveg eins kröftugar, svo ég lagðist aftur uppí og reyndi að hvíla mig.
Ég sendi update á mömmu og hún sagði að þar sem verkirnir voru að versna í styrk væri undirbúningurinn að herðast og að detta í fæðingarhríðir þrátt fyrir að það væri enþá pínu óregla á milli þeirra - hjá fjölbyrjum getur hellingur gerst þegar verkir herðast þó takturinn sé ójafn. 
kl 11:15 komu Hildur systir og Elín Björk (5 mánaða) og þá lá ég enþá uppí rúmi og staðan svipuð, nema ég var farin að þurfa að anda mig meira i gegnum hríðina. 
kl 11:50 fór ég fram, gekk rólega um, hreyfði mig aðeins og hríðarnar duttu allt í einu í að vera með 4-5 mínútna millibili og voru jafn kröftugar og í hvíld. Ég andaði mig í gegnum þær með haföndun sem hjálpaði mér ótrúlega mikið. Mér fannst gott að halla mér fram, styðja mig við borð og hreyfa aðeins til mjaðmirnar meðan verkurinn stóð yfir. Það var líka gott þegar Árni eða Hildur struku aðeins yfir mjóbak, spjald og mjaðmir. Vá hvað var yndislegt að vera í rólegheitunum heima í mínu örugga umhverfi. 
Ég einbeitti mér eins og ég gat að slaka niður, slaka á andliti og kjálkum og að leyfa hríðinni að vinna sína vinnu. Ég setti orkuna í eina hríð í einu og hugurinn var allur við það að hver hríð væri góð og kæmi mér nær því að fá litla gaurinn minn í fangið. Mér fannst þetta hugarfar hjálpa mér að halda einbeitingu og peppaði mig svo áfram. 
kl 12:01 sendi ég sms á mömmu og bað hana um að koma því mér fannst verkirnir vera orðnir það vondir og búið að styttast á milli.
kl 12:20 var mamma komin. Hún skoðaði mig og var þá útvíkkun komin í 6 cm, leghálsinn mjúkur, belgirnir strektir og kollurinn rétt við spina. Ég man eftir að hafa hugsað og sagt við Hildi systir: "okei næs! þetta er alls ekki búið að vera svo slæmt hingað til". Þannig þetta var alveg gott pepp. 

kl 12:30 hringdum við í Björkina og sögðum þeim stöðuna. Þær ákváðu að leggja af stað til okkar en þær þurftu að keyra frá Reykjavík og á Selfoss þar sem við eigum heima. 

Mig fór að langa ofaní vatnið því ég fann að hríðarnar voru þá orðnar vel harðar og kl 12:53 var ég komin ofaní. Vá hvað það var ótrúlega notalegt! Varð alveg verkjalaus og fannst ég ná bara einhverri auka orku. Ég kom mér vel fyrir í lauginni þar sem ég lá fram á brúninni með gleytt á milli fóta og gerði mig tilbúna í að takast á við komandi hríðar. 

Hríðarnar hörðnuðu hratt og voru með um 3 mínútna millibili. Ég náði að slaka nokkuð vel á þess á milli. Fékk kaldan þvottapoka sem ég setti á ennið og hreyfði mig til i vatninu. Ég var alveg í mínu zone-i og einbeitti mér að önduninni og að halda fullri stjórn. Enþá var haföndunin að gera kraftaverk. Ég hélt í Árna í hverri hríð, en mér fannst gott að geta kreist hann og notað hann sem stuðning. Hann minnti mig á að anda djúpt og hvatti mig áfram ❤️ 

um kl 13:30 komu Arney og Elva, ljósmæður úr Björkinni.

Fljótlega uppúr því fór legvatnið og ég fann fyrir því eins og vatnsblaðra að springa í klofinu á mér! fann svo fyrir rennslinu af vatninu renna út sem var alveg tært með fósturfitu í og ég horfði ofaní baðið og sá hvernig það gusaðist út ofaní vatninu.

Ég fór í kjölfarið að finna fyrir meiri þrýstingi niður og út í mjaðmir. 

Stuttu seinna fór ég að fá ósjálfráðan rembing í lok hríða og fljótlega kom mikil rembingsþörf í næstu hríðum á eftir sem varð alltaf sterkari með hverri hríð. Magnað að upplifa þennan ósjálfráða rembing.

Ég fór síðan að finna fyrir kollinum mjakast niður fæðingarveginn en það var ótrúlegt að finna svona vel fyrir barninu mjakast niður, því ég man ekki eftir að hafa fundið það svona vel í fyrstu fæðingu. Í biðinni eftir næstu hríð var rooosalegur þrýstingur ofaní grindinni. 

kl 14:05 var síðan kollurinn krýndur (ring of fire) og þá kom mjöög mikill sviði þarna niðri. Biðin eftir næstu hríð var á þessum tímapunkti mjög löng. Ég reyndi allan tímann að láta hríðarnar og ósjálfráða rembinginn vinna sína vinnu og stjórna alveg ferðinni. 

Í næstu hríð kl 14:08 fæddist hann! 

Höfuðið kom fyrst út í smá stund og ég man eftir því að Arney sagði þá: "settu nú alla kraftana í þetta". Þá gaf ég aðeins betur í rembinginn og líkaminn kom allur út með stuðningi og aðstoð mömmu og Arneyjar. Hann "synti" milli fótanna minna og ég tók hann svo sjálf uppúr vatninu og beint í fangið ❤️ 

Gæti ekki hugsað mér betri upplifun af fæðingu ❤️ Ég upplifði mig allan tíman undir fullri stjórn og fann hvað allt var eins og það átti að vera. 

Ómetanlegt að eiga mömmu sem er ljósmóðir og var til staðar fyrir okkur sem ljósmóðir, mamma og amma ❤️ Ég á líka ljósmæðrunum frá Björkinni svo mikið að þakka en þær eru algjörir fagmenn í sínu starfi ❤️
Created with